
Leikfélag Vestmannaeyja sýnir Dýrin í Hálsaskógi
Saga : Thorbjorn Egner
Tónlist: Thorbjorn Egner og Christian Hartmann
Þýðing: Hulda Valtýsdóttir og Kristján frá Djúpalæk
Leikstjóri: Agnes Emma Sigurðardóttir
Leikfélag Vestmannaeyja frumsýndi 25.október s.l. barnaleikritið Dýrin í Hálsaskógi í leikstjórn Agnesar Emmu Sigurðardóttur. Flest þekkjum við þessa gömlu sögu Thorbjörn Egner um lífsglöðu músina Lilla og öll hin dýrin í skóginum, svo maður tali ekki um tónlistina í verkinu eins og Piparkökusönginn og Vögguvísu (Dvel ég í draumahöll). Þetta er í fjórða skiptið sem Leikfélag Vestmannaeyja setur upp þetta sama verk en engu að síður var þetta í fyrsta skipti sem ég og minn leikhúsfélagi Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttir sáum það á sviði. Innihald verksins er klassískt ,,Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir“. Eitthvað sem við mannkynið ströglum enn við í dag að halda í heiðri. Persónur verksins eru fjölmargar en fremstir í flokki eru auðvitað þeir Lilli Klifurmús og Mikki refur. Karakterar sem þeir Árni Tryggvason og Bessi Bjarnason gerðu ódauðlega þegar Þjóðleikhúsið var með heimsfrumsýningu á þessu sama verki árið 1962. Sagan segir að þegar Bessi mætti á sviðið í hlutverki Mikka hafi börnin í Þjóðleikhúsinu sigið niður í sætin af skelfingu.
Það er skemmtilegt frá að segja að það nákvæmlega sama gerðist í leikhúsi okkar Eyjamanna þegar Jökull Elí Þorvaldsson í hlutverki Mikka stökk fram á sviðið. Barnabarn undirritaðrar, sem setið hafði spennt alveg fremst í sætinu sínu á þriðja bekk, smokraði sér smá saman aftar í sætið þar til það var komið alveg upp að sætisbakinu og endaði að lokum í fanginu á móður sinni. Jökull Elí fer alveg á kostum í hlutverki hins háværa, lævísa og brögðótta Mikka refs. Hann er með frábærar tímasetningar, virkilega góða framsögn og hreint ágætis söngrödd. Er mátulega ógurlegur í augum barnanna og skemmtilegur á sama tíma.
Arnar Gauti Egilsson fer líka þrælvel með hlutverk Lilla klifurmúsar. Hann er leikandi léttur og afar skemmtilegur sem Lilli, með skýra og góða framsögn.
Þá var Ingveldur Theódórsdóttir virkilega góð, örugg og trúverðug sem Amma mús og syngur svona líka vel. Atriðið þar sem Amma mús fýkur um loftin og syngur Flugsöng ömmu var sérstaklega fallegt og vel útfært.
Sara Elía Thórshamar var einkar skýrmælt í hlutverki Bangsamömmu og samleikur hennar og Guðjóns Emils Ómarssonar, sem fer með hlutverk Bangsapabba, oft á tíðum góður.
Guðbjörg Karlsdóttir leikur Bangsa litla og gerir það prýðilega. Hún er ósköp mikið krútt í þessu hlutverki sínu með skýra og góða rödd.
Lilja Sigurðardóttir komst líka mjög vel frá sínu hlutverki sem Patti broddgöltur og það sama má segja um þær Viktoríu Ninju Egilsdóttur í hlutverki Kráku-Péturs, Rafael Bóas Davíðsson í hlutverki Elgsins, Míu Bjarný Haraldsdóttur, Örnu Gunnlaugsdóttur og Hrafnkell Darra Steinsson sem leika íkornana Lísu, Önnu og Tuma. Virkilega gaman að sjá unga leikara standa sig svona vel.
Caritas Rós Tinnudóttir leikur Pétur íkorna og vakti það sérstaka athygli undirritaðrar hve Caritas Rós lék af mátulega mikilli innlifun þó ekki væri hlutverkið stórt eða viðamikið. Aldrei datt hún úr karakter þó fókusinn væri ekki hennar megin á sviðinu heldur var hún fullur þátttakandi í því sem var að gerast allan tímann, ýmist með svipbrigðum og/eða látbragði. Virkilega vel gert hjá þessari ungu leikkonu og vonandi fáum við að sjá meira af henni á fjölum Leikfélags Vestmannaeyja í framtíðinni.
Aðalbjörg Andrea Brynjarsdóttir leikur Martein skógarmús og gerir það óaðfinnanlega og það sama má segja um Guðný Emilíu Tórshamar sem leikur Húsamúsina. Guðný hefur líka sérstaklega fallega söngrödd sem nýtur sín vel í Húsamúsarvísunni.
Samleikur Berthu Þorsteinsdóttur og Júlí Sigurjónsdóttur, sem Maðurinn og Konan, var virkilega skemmtilegur og fyndinn. En líklegast var það samleikur Berthu og Sigurjóns Geirssonar í hlutverkum Héraðsstubbs bakara og Bakaradrengsins það atriði sem vakti hve mesta kátínu meðal barnanna í leikhúsinu. Þau tvö fóru alveg hreint á kostum í piparkökuatriðinu sem skilaði sér vel út til hinna ungu áhorfenda sem skelltu ítrekað uppúr. Bertha og Sigurjón hafa sýnt það bæði að þau eiga heima á sviði og fara bráðvel með þau hlutverk sem þeim eru falin. Vonandi fáum við leikhúsgestir að sjá meira af þeim í leikhúsinu í framtíðinni og í enn stærri hlutverkum. Þau hafa sýnt að þeim er fulltreystandi til þess. Leikmynd og lýsing voru einkar vel gerð í þessu verki og það voru búningar og förðun einnig. Sýningin er virkilega litrík og falleg og augljóst að undirbúningstíminn hefur verið vel nýttur. Undirrituð hafði sérstaka ánægju að heyra af áhuga allra þeirra sem höfðu komið í prufur fyrir hlutverk í verkinu. Ekki síst þegar fréttist að þau sem ekki höfðu fengið hlutverk sóttust þá eftir að fá að vinna baksviðs í staðinn. Með allan þennan áhuga unga fólksins á að starfa með leikhúsinu okkar er framtíð Leikfélags Vestmannaeyja björt. Ég hlakka til þeirrar framtíðar.
Bravó….Agnes Emma og þið öll hjá Leikfélagi Vestmannaeyja!
Takk fyrir mig og okkur,Helena Páls

Comments