top of page

Blúndur og blásýra - Gagnrýni

Þau lögðu allt í þetta…og það sást!


Marta og Abbý Brewster

Leikfélag Vestmannaeyja frumsýndi nú um helgina hinn vinsæla farsa Blúndur og blásýra eftir Joseph Kesselring. Verkið fjallar um systurnar Mörtu og Abbý Brewster, eldri piparjúnkur sem virðast sannfærðar um að það sé þeirra trúarlega skylda að hjálpa einstæðum, einmanna eldri mönnum að komast yfir á næsta tilverustig með því að eitra fyrir þeim og grafa þá síðan í kjallaranum á óðalinu þar sem þær búa. Þar býr líka bróðir þeirra, sérvitringurinn Teddy, sem haldinn er þeirri firru að hann sé Theodore Roosevelt forseti Bandaríkjanna. Inn í söguna fléttast svo fleiri skemmtilegir karakterar eins og frændi þeirra systra, leikhúsgagnrýnandinn Mortimer, sem eftir að hafa komist að leyndarmáli systranna, gerir sitt besta til að fela það fyrir unnustu sinni Elínu Harper. Þá fáum við líka að kynnast systur Mortimer, hinni siðferðisbrengluðu Jónu Brewster, sem sjálf virðist hafa nokkur leyndarmál að geyma, dr. Einstein lýtalækninum hennar og jú auðvitað lögreglunni sem aldrei er of langt undan. Allt er þetta samansafn af áhugaverðum og vel skrifuðum persónum sem gera leikverkið að bráðskemmtilegri svartri kómedíu.


Blúndur og blásýra (á frummálinu; Arsenic and old lace) hefur verið sett upp víða um heim en var fyrst frumsýnt á Broadway í janúar 1941. Það naut fádæma vinsælda og þegar sýningum lauk í júní 1944 hafði það verið sýnt alls 1444 sinnum. Aðeins þremur mánuðum síðar kom svo verkið fyrir augu áhorfenda í kvikmyndahúsum Bandaríkjanna þar sem þær Josephine Hull og Jean Adair fóru með hlutverk systranna Abby og Martha Brewster og sjarmörinn Cary Grant var í hlutverki Mortimer.  Kvikmyndatökur höfðu reyndar hafist og jafnframt klárast 1941 en þar sem leikverkið naut svo mikilla vinsælda á Broadway ákváðu framleiðendur myndarinnar, í samráði við aðstandendur leikverksins, að bíða með frumsýningu á myndinni fyrir almenning þar til sýningum á Broadway lyki. Blúndur og blásýra var fyrst sett upp hér á landi 1947 í Iðnó og hefur síðan verið sýnt við miklar vinsældir hjá leikfélögum víða um land m.a. í Þorlákshöfn, Seyðisfirði og á Hornafirði. Stykkið er jafnframt 179. leikverk Leikfélags Vestmannaeyja. Alls tíu leikarar koma að verkinu og er leikstjóri þess, Árni Grétar Jóhannsson, okkur leikhúsgestum í Eyjum öllum að góðu kunnur en hann leikstýrði einmitt Benedikt Búálfi og Klaufar og kóngsdætur í uppfærslu LV.

Dr. Einstein, Mortimer & Jóna Brewster

Árni nálgast þetta nýjasta verk LV á ólíkari hátt en kannski oft áður hefur verið gert þar á bæ. Þannig fær hann leikarana til að takast á við spennandi áskoranir eins og þær að fela þeim hlutverk sem eru hvað ólíkust leikurunum sem valdnir voru í hlutverkin. Það krefst mikils af leikurunum, heppnaðist að okkar mati sérstaklega vel á frumsýningunni og sannarlega óhætt að lofa leikstjórann fyrir að fara ekki öruggu leiðina í nálgun sína á verkinu. Sýningin var óvænt og bráðskemmtileg þannig að tárin láku oft á tíðum niður kinnar leikhúsgesta. Tvennt vakti líka sérstaka athygli okkar leik(hús)félaga míns, Kolbrúnar Hörpu, en það var annarsvegar leik/sviðsmyndin, sem er alveg framúrskarandi falleg, sérlega vel hönnuð og viðeigandi fyrir tímabilið sem leikverkið gerist á. Hinsvegar var það förðun, hár- og búningahönnunin sem er með því allra besta sem við höfum séð hjá LV. Það er bara ekki hægt annað en að hrósa aðstandendum verksins fyrir að leggja extra mikla vinnu og metnað í þessi atriði, ásamt ljós- og hljóðstjórn, því það skilaði sér alveg út í sal og fyrir vikið urðu persónurnar, staður og stund trúanlegri.


Mortimer Brewster og Elín Harper

Og talandi um persónurnar í verkinu þá eru þær auðvitað mis áberandi og hlutverkin ekki öll jafn bitastæð. Ólafur Ingi Sigurðsson kemst ágætlega frá sínu sem hinn veruleikafirrti Teddi Brewster og það gera líka þeir Snorri Geir Hafþórsson og Guðmundur Eyberg Kristjánsson sem værukæru lögregluþjónarnir Bróphý og O´Hara. Egill Andrésson var eftirminnilegur í litlu hlutverki varðstjórans Gibbs og Elvar Þór Eðvaldsson var hreint ágætur sem lýtalæknirinn Dr. Einstein. Thelma Lind Þórarinsdóttir leikur hina ástföngnu og sjarmerandi Elínu Harper. Persónusköpunin er einkar vel heppnuð og sýnir Thelma Lind afragðs leik á stundum. Það sama má segja um Jökull Elí Þorvaldsson sem leikur Mortimer Brewster. Jökli hefur farið heilmikið fram síðan við sáum hann leika í Ævintýrabókinni á fjölum LV en hér er hann kominn í mun stærra og viðameira hlutverk. Svanhildur Eiríksdóttir leikur Jónu Brewster. Mig rámar ekki í að Svanhildur hafi leikið áður svona ruddalegan karakter heldur hefur hún hingað til leikið frekar kátar, léttar og skemmtilegar týpur og gert það vel. Það hefur örugglega verið töluverð áskorun fyrir Svanhildi að takast á við hlutverk Jónu. Það er því enn meiri viðurkenning fyrir hana hversu vel hún kemst frá því. Alexander Páll Salberg leikur Mörtu Brewster og bregst ekki væntingum þeirra sem séð hann hafa áður á sviði. Það er alltaf áhugavert þegar kynhlutverkum er svissað í verkum en afar misjafnt hvernig til tekst. Alexander er hinsvegar dásamlega eftirminnilegur í rullu þessarar eldri konu þar sem hann tipplar um á svörtum hælaháum skónum og nurlar höndunum reglulega saman. Hann er hreint fæddur í gamanhlutverk en tekst sérstaklega vel til hér. Svipbrigðin eru ógleymanleg og leikur hans öllum þeim sem á horfðu ómæld skemmtan. Maðurinn er einfaldlega sjúklega fyndinn.

Albert Snær Tórshamar fer algjörlega á kostum sem Abby Brewster. Það er ekki auðvelt að fá fastagesti í litlu áhugaleikhúsi úti á landi, þar sem allir þekkja alla, til að gleyma því stutta stund að þar fari ungur strákur í hlutverki gamallar konu. En það tókst honum nú samt að láta okkur gera. Hann er dásamlega fyndinn, virðist líða sérstaklega vel á sviðinu og afbragð góður leikur hans alveg laus við alla áreynslu. Það ásamt frábærri förðun, hár- og búningahönnun gerir það að verkum að Albert nær að fanga atgerfi og persónu Abby Brewster þannig að eftir var tekið. Með öðrum orðum Albert Snær ER Abby Brewster!

Það er ekki hægt annað en að óska Leikfélagi Vestmannaeyja hjartanlega til hamingju með þetta nýjasta leikverk félagsins. Ég hef margoft lofað félagið fyrir þá fagmennsku og hugrekki sem einkennir þetta litla áhugamannaleikhús og má til með að róma þau og leikstjórann fyrir þann metnað sem þau sýndu okkur hinum á frumsýningunni á föstudagskvöldið.

Þau lögðu allt í þetta…og það sást!


BRAVÓ…Árni Grétar og þið öll hjá Leikfélagi Vestmannaeyja.


Takk fyrir mig og okkur, Helena Pálsdóttir

340 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page