top of page

Eitt Gott Partý

Leikfélag Vestmannaeyja sýnir:

Síðan eru liðin mörg ár

Frumsýningardagur 5.nóvember 2021

Verk nr. 180

Leikhúsgagnrýni: Helena Pálsdóttir

     Eftir að hafa orðið fyrir vonbrigðum í fyrra í kjölfar þess að Leikfélag Vestmannaeyja neyddist til að aflýsa öllum sýningum á grínsöngleiknum Spamalot vegna Covid 19, var ekki laust við að spenningur gerði vart við sig þegar fréttist að LV ætlaði að setja upp nýtt og algjörlega frumsamið verk í ár. Nú um helgina frumsýndi leikfélagið svo söngleikinn ,,Síðan eru liðin mörg ár” við einróma lof leikhúsgesta. Ég veit reyndar ekki hvort hægt er að tala beinlínis um söngleik því satt best að segja var upplifun leikhúsgesta meira lík því að vera staddir í góðu partý með ,,live” hljómsveit heldur en að vera í leikhúsi. Það þarf engum að koma á óvart, sem hafa haft nennu til að lesa áður leikhúsgagnrýni frá mér, að ég held mikið uppá Leikfélag Vestmannaeyja og hef gert frá blautu barnsbeini. Ég ólst að hluta til upp í leikhúsinu, fór á fleiri leikæfingar en ég gæti talið, fyrst með móður minni og fyrrum leikkonu og nú leik(hús)félaga Kolbrúnu Hörpu Kolbeinsdóttur og síðar með móðursystur minni Elfu Kolbeinsdóttur. Drakk þar í mig frábær leikverk eins og Fyrsta öngstræti til hægri, Aumingja Hanna, Er á meðan er, Oklahoma og þannig mætti lengi telja. Á stundum kunni ég texta allra leikaranna í verkinu jafnvel betur en þeir sjálfir og ef það kom fyrir að einhver gleymdi línunni sinni í miðri æfingu/sýningu átti ég til að hvísla, kannski fullhátt, út í sal þar sem ég sat hvernig næsta lína átti að vera. Svona eftirá að hyggja finnst mér það nokkuð vel af sér vikið af minni hálfu að hafa þetta ung til dæmis lært allar línur leikaranna í söngleiknum Oklahoma og textana við lögin þeirra líka…en það verk er bæði stórt og viðamikið með ansi mörgum leikurum og miklum texta.

Talaður texti í ,,Síðan eru liðin mörg ár” er ekki mikill en engu að síður bæði hnyttinn og skemmtilegur. Sem er akkurat það sem þarf til að tengja verk saman sem byggt er upp á tónlist þannig að úr verði ágætis heildarverk. Handritsgerð var í höndum leikhópsins sjálfs og mega þau vera ánægð með sína vinnu, ekki síst þar sem tími frá handritargerð til frumsýningar var knappur. En svo við víkjum að viðamesta hluta verksins, tónlistinni, þá fengum við leikhúsgestir að heyra og sjá oft á tíðum frábæra frammistöðu ungra söngvara/leikara svo að hrein unun var á að hlýða. Það eru þau Albert Snær Tórshamar, Bryndís Guðjónsdóttir, Guðný Emilíana Tórshamar, Hafþór Elí Hafsteinsson og Valgerður Elín Sigmarsdóttir sem sjá um sönginn.

Valgerði Elínu sá ég síðast á sviði fyrir þremur árum síðan í hlutverki frú Pússulínu þegar LV setti upp verkið um hana Línu langsokk. Hér birtist hún okkur hinsvegar í mun stærra hlutverki þar sem hún syngur einsöng í lögunum ,,These boots were made for walking” og ,,Jolene”, ásamt því að syngja samsöng og bakraddir í nokkrum öðrum lögum. Valgerður Elín fer þrælvel með sín einsöngslög, hefur flotta rödd, er glæsileg á sviði og býr yfir miklum karakter. Vona ég að við fáum að sjá meira af henni í framtíðinni.

Það sama má segja um Bryndísi Guðjónsdóttur sem ræðst reyndar ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þar sem hún syngur einsöng í lögum eins og ,,Heart of Gold” með Blondie og ,,Proud Mary” með Tina Turner. Bæði geta þetta verið dálítið erfið lög að syngja og tala nú ekki um ef listamaðurinn þarf að vera að dansa/leika um leið og sungið er. Háu nóturnar í Heart of Gold og svo hin fræga dansrútína Tinu í Proud Mary, hafa reynst fólki mis erfið viðureignar. Bryndís og meðleikarar hennar tækluðu þetta hinsvegar hreint ágætlega, þó ósjálfrátt hafi maður verið orðin þreyttur með þeim þarna í lok seinna lagsins. Bryndís heillaði leikhúsgesti uppúr skónum um helgina enda fékk hún mikið lof í lófa eftir frammistöðu sína á sviðinu.

Guðný Emilíana er hæfileikabúnt af Tórshamar ættinni. En listrænum hæfileikum í tón-, leik- og myndlist virðist hafa verið veglega úthlutað til þeirrar fjölskyldu þegar guðsgjöfunum var útdeilt og því til marks standa nú þrír úr þeirri fjölskyldu saman á sviði LV. Það eru þau Albert Snær, Guðný Emilíana og svo faðir hennar Helgi Tórshamar sem spilar á gítar með hljómsveitinni. Guðný Emilíana er algjört sjarmatröll á sviði og auðvelt að gleðjast með henni þegar vel tekst til. Söngurinn var á tíðum algjört afbragð og virkilega gaman að heyra hana negla háu nóturnar hennar Siggu Beinteins í ,,Vertu ekki að plata mig” sem var annað af uppklappslögunum. Samsöngur hennar og þeirra hinna var alveg hreint meiriháttar. En það var gamla Rod Stewart lagið ,,I don´t want to talk about it” sem hitti mig persónulega alveg í hjartastað, enda hrein unun á að hlýða í flutningi þeirra Guðnýar og Alberts Snæs.

Albert Snæ Tórshamar ættu leikhúsgestir LV að þekkja orðið vel enda eftirminnilegur í hvaða hlutverki sem hann tekst á hendur, hvort heldur það eru lítil hlutverk eða stór. Hann er kómíker af guðs náð, virðist líða ótrúlega vel á sviðinu, afslappaður, eðlilegur og sjúklega fyndinn. Og svo getur maðurinn sungið! Vá getur maðurinn sungið. Það var einmitt röddin hans sem var það fyrsta sem ég man eftir að hafa tekið eftir þegar ég sá hann fyrst á fjölum LV fyrir akkurat fimm árum síðan í hlutverki Sölvars Súra í verkinu um Benedikt Búálf. Þá, eins og nú, var það skýrmælgi hans og falleg söngröddin sem heillaði fyrst okkur leikhúsgesti og hvergi fær hún sín betur notið en einmitt í verki eins og þessu þar sem hann syngur bæði einsöng og svo samsöng með sviðsfélögum sínum. Fallegasti flutningur kvöldsins að mínu mati og okkar leik(hús)félaga míns, Kolbrúnar Hörpu, var samsöngur hans og Hafþórs Elís Hafþórssonar í laginu ,,Í gær” sem fólk ætti að kannast við í flutningi þeirra Björgvins Halldórssonar og Stefáns Hilmarssonar. Algjörlega meiriháttar flutningur þar sem fallegar raddir þeirra Alberts og Hafþórs fengu notið sín svo mjög að gæsahúð hríslaðist ítrekað um kroppinn.

Og talandi um Hafþór Elí Hafsteinsson þá er ekki hægt annað en að nefna frábæra frammistöðu hans í þessu verki. Hafþór Elí hefur ekki áður verið í stóru hlutverki á sviði LV heldur unnið meira á bakvið tjöldin og komið fram í litlu aukahlutverki. Tímasetningin á þessu stóra hlutverki virðist hinsvegar hárrétt nú því hann fer á kostum. Hann er bráðfyndinn, skemmtilegur og glæsilegur á sviði og röddin….maður minn. Hann var flottur í sínum einsöngslögum og hef ég áður minnst á geggjaðan samsöng hans og Alberts Snæs í laginu ,,Í gær”. En túlkun Hafþórs á gamla bítlalaginu ,,Come together”, sem hann syngur einmitt með Alberti Snæ, var hreint út sagt FRÁBÆR! Ótrúlega þétt og kröftug röddin sem hann bar á borð fyrir okkur í því lagi sló mann nánast útaf laginu eftir að hafa hlustað á hann rétt áður syngja svo blíðum rómi fallega lagið um ,,Pípuna” ásamt Guðný Emilíönu….sem var notabene algjörlega dásamlegt í flutningi þeirra beggja. Ég vil sjá og heyra meira frá Hafþóri Elí á sviði í framtíðinni því þar á hann heima. Það var svo augljóst hvað hann vildi vanda vel til verka og hann hefur svo sannarlega hæfileikana til þess.

     Það var ótrúlega góð stemning í leikhúsinu um helgina. Frumsýningin heppnaðist stórkostlega og fyrsta sýningin var algerlega trufluð. Búningar, hár og förðun var falleg og viðeigandi og það sama má segja um sviðsmynd og ljósahönnun sem var hagalega og smekklega gerð. Þá var hljóðstjórn til fyrirmyndar. Lifandi flutningur tónlistarinnar í meðförum hljómsveitarinnar ,,V.R. And the Barbers” var svo algjörlega punkturinn yfir i-ið. Enda hef ég margoft haft það á orði að það er bara algerlega ólík upplifun fyrir leikhúsgesti að hafa tónlistina á bandi eða í beinni. Bandið, sem inniheldur einstaklinga á öllum aldri frá fimmtugu og niður, úr ólíkum áttum, var þrælgott og dásamlega gaman þegar ungum gítarleikara leikhúsbandsins henni Aniku Heru Hannesdóttur var gert aðeins hærra undir höfði í sólóunum sínum. Algjörlega meiriháttar og mikil skemmtun fyrir okkur áhorfendur. Aðrir meðlimir bandsins eru þeir Bjarki Ingason á trommum, Bogi Matt Harðarson á píanó, Helgi Rasmussen Tórzhamar á gítar, Jón Bjarki Birkison á slagverk og svo Viktor Ragnarsson sem ásamt því að spila á bassa er jafnframt hljómsveitarstjóri. Það ætti að segja sitt um skemmtunina sem leikhúsgestir fá að njóta í þessari sýningu að ekki dugði fyrir hljómsveitina og söngvarana að vera búin að æfa aðeins eitt uppklappslag því áhorfendur heimtuðu meira og gáfu sig ekki fyrr en hljómsveitin taldi aftur í ,,I want to break free” með Queen og allir sungu með hástöfum, dilluðu sér í salnum og klöppuðu. Eða eins og nefnt var í byrjun þessa pistils þá var engu líkara en áhorfendur væru staddir í góðu partý og það var nákvæmlega enginn tilbúinn að fara heim.

BRAVÓ…Leikfélag Vestmannaeyja!

Takk fyrir mig og okkur,

Helena Pálsdóttir

6 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page