Það er alltaf mikill spenningur sem fylgir því að fara í leikhús og við í Vestmannaeyjum erum lánsöm að eiga jafn farsælt og afkastamikið leikfélag eins og Leikfélag Vestmannaeyja. Ég kann alltaf að meta það þegar leikfélagið okkar setur á svið sígildar barnasýningar, bæði það að mér finnst gaman að fara með börnin mín í leikhús og hitt er síðan að þegar ég sit á leikhúsbekk með popp eða kúlupoka og sé Mikka ref, Soffíu frænku eða Karíus ljóslifandi fyrir framan mig þá verð ég einhvern veginn aftur barn í smá stund.
Ég fór að sjá Línu með Söru Rós dóttur minni sem er mikill aðdáandi þessarar hraustu sænsku stúlku sem við þekkjum svo vel. Söguþráðinn þarf ekki að kynna fyrir neinum enda hin níu ára Lína verið fastagestur á íslenskum heimilum um árabil. Spenningurinn í salnum var mikill þegar Unnur Guðgeirsdóttir formaður leikfélagsins bauð gesti velkomna. Hún kom inn á það í sínu máli að leikarahópurinn væri óvenju ungur, jafnvel þó um áhugamannasýningu væri að ræða og að það væri óvenjulegt þar sem hlutverkin gera ráð fyrir fullorðnum leikurum. Þar er engu logið, leikararnir fjórir sem fara með hlutverk Línu, Herra Níels, Önnu og Tomma eiga það sameiginlegt að vera öll fædd árið 2006 en sama ár setti Leikfélag Vestmannaeyja einmitt Nunnulíf á svið. Ungur aldur leikaranna kom þó á engan hátt niður á upplifun þeirra sem mætt voru í leikhús. Sýningin er lífleg og skemmtileg frá upphafi til enda. Sérstaka athygli mína vöktu Sara Sindradóttir og Gabríel Ari Davíðsson sem eru að stíga sín fyrstu skref í stóru hlutverki í leikhúsi, leikandi þau Önnu og Tomma. Þau leystu það bæði vel í söng, dansi og annarri framkomu. Auðvitað mátti greina það á köflum að um frumraun í stóru hlutverki var að ræða hjá krökkunum en ekki annað hægt en að dást að þeim báðum sem eiga framtíðina fyrir sér í leiklistinni. Rakel Perla Gústafsdóttir lék Herra Níels og skilaði því skemmtilega til áhorfenda. Mig langar líka til að hrósa þeim sem stóðu að förðun og gervi á apanum vinalega sem og öðrum búningum í sýningunni. Tvíeykin Hængur og Klængur annarsvegar og svo Glúmur og Glámur setja skoplegan svip á sýninguna og allir þátttakendur í kökuboðinu ógleymanlega fengu leikhúsgesti til að skella upp úr með góðri frammistöðu. Sjóræningjahópurinn fékk alla til að dilla sér í sætunum með kröftugum dansi og söng þar sem ánægjan skein úr hverju andliti.
Mér er, eins og mörgum öðrum, í fersku minni frammistaða Ágústu Evu Erlendsdóttur í hlutverki Línu. Ég sá hana í Borgarleikhúsinu og svo á annari hverri bæjarhátíð næstu fimm árin þar á eftir. Ágústa Eva var fædd til að vera Lína og vandfundinn meiri langsokkur en hún. Ég hugsaði mér að Ísey Heiðarsdóttir ætti erfiðan samanburð fyrir hönfum. Ísey er eins og flestir þekkja frábær leikkona og verðlaunuð sem slík. Til að gera langa sögu stutta þá verða hér eftir allar framtíðar Línur bornar saman við frammistöðu Íseyjar í þessu verki. Ég hef svo sem ekki mikið vit á leiklist en ég tel mig hafa ágætis þekkingu á þolþjálfun og líkamlegu atgervi. Ég get ekki sagt annað en að ég hafi á köflum orðið móður, bara við það eitt að horfa á Línu syngja og dansa meðan hún þeyttist upp og niður sviðsmyndina á handahlaupum og heljarstökkum. Það útheimtir gríðarlega orku að leika Línu Langsokk enda varla til líflegri persóna. Allt þetta gerði hún, og skilaði á sama tíma fullkomlega sannfærandi frammistöðu út í sal. Til marks um það hversu mikill fagmaður Ísey er orðin, þá varð hún fyrir því óláni að hrasa nokkuð illa ofan af skólaborði í sýningunni. Ég efast um að allir hafi áttað sig á því að um slys var að ræða því hún lét það ekki trufla sig og hélt ótrauð áfram. Ég hef séð þrautþjálfaða íþróttamenn liggja lengi grátandi eftir minna hnjask.
Það þarf samstilltan, áhugasaman og hæfileikaríkan hóp til að framleiða upplifum sem þessa. Ég vill óska Ólafi Sigurðssyni leikstjóra og öllum þeim sem að þessari sýningu koma til hamingju með skemmtilegt verk og þakka kærlega fyrir mig. Það verður enginn svikinn af því að kíkja í leikhús á næstu vikum, eða eins og Sara Rós orðaði það í aftursætinu á leiðinni heim "Þetta var ógeðslega skemmtilegt, Lína var geggjuð" og hélt svo áfram að raula "Sterkust af öllum stelpum ég er..."
Sindri Ólafsson, Eyjafréttir.
留言