top of page

Grease - Gagnrýni

Hver grætur á Grease?

Ég verð að viðurkenna að það bærðust í mér blendnar tilfinningar þar sem ég skundaði með leik(hús)félaga mínum og móður, Kolbrúnu Hörpu, á nýjasta verk Leikfélags Vestmannaeyja söngleikinn Grease.  Eins og á líklega við um fleiri leikhúsgesti, er þessi söngleikur meitlaður í huga mér. Og eftir að hafa horft á bíómyndina c.a. ,,þúsundogeinusinni” frá því ég var barn, er ekki fjarri sanni að halda því fram að ég kunni utanbókar hverja setningu, hverja laglínu, hreyfingar karakteranna, hik, dæs, andvarp, stunu og....ehhh...já þið náið hvert ég er að fara með þetta. Það var ekki síst af þessum sökum, og til að gæta allrar sanngirni í mínum gangrýna huga, að það var tekin meðvituð ákvörðun að fara ekki á sýningu fyrr en stykkið værið orðið ,,vel smurt”. Og vel smurt skyldi það vera orðið í kvöld 19.apríl, rúmlega þremur vikum eftir frumsýninguna.

Strax eftir að Birgir Nielsen trommari hafði talið í og bandið hóf flutninginn á fyrsta laginu, fann ég hvernig gæsahúðin hríslaðist niður bakið á mér og þannig gekk það fyrir sig nánast í hverju einasta lagi eftir það. Og fyrst ég er nú að minnast á leikhúsbandið má ég til með að hrósa þeim í hástert fyrir flutninginn í kvöld. Því þó svo söngurinn hafi kannski ekki alltaf verið alveg upp á tíu hjá ákveðnum leikurunum var flutningur bandsins hinsvegar alveg hreint magnaður og algjör ,,gæsahúðarkveikjari” á stundum. Má ég þá í því sambandi nefna sem dæmi undirspilið og hljómborðsleikinn í fallegu ballöðunni ,,Hopelessly devoted to you”. Ef maður hefði ekki vitað betur hefði mátt halda að Páll Viðar væri með heila strengjahljómsveit í felum einhversstaðar á bakvið sig! Krafturinn og frábær flutningur bandsins og Birkis Högnasonar á ,,Born to hand jive” varð til þess að maður hreinlega iðaði í sætinu. Og þannig var það reyndar í fleiri lögum. Fyrir utan örlitil blásturshljóðfæra-mistök, sem örugglega enginn annar tók eftir, var flutningur hljómsveitarinnar óaðfinnanlegur og ótrúlega þéttur. Hvaða atvinnumannaleikhús sem er væri fullsæmt af því að hafa þetta band innan sinna raða. Bravó leikhúsband!

Á stundum hafði ég reyndar á tilfinningunni að ég væri einmitt stödd í atvinnumannaleikhúsi ...þvílík var frammistaða ákveðinna leikara þarna á sviðinu. Það kom mér samt í opnu skjöldu að ég skyldi upplifa það að verða svo hrifnæm á þessum tveimur tímum að ég myndi hlæja mig máttlausa í aðra röndina og gráta svo úr mér augun í þeirri næstu!  Ég meina....hver grætur á Grease? Leikstjóri sýningarinnar Ágústa Skúladóttir á heiður skilið fyrir sína vinnu í þessu flotta stykki. Hér var að stærstum hluta vel valið í hlutverk, nálgun hennar og áherslur í verkinu voru áhugaverðar og oft á tíðum bráðskemmtilegar að mínu mati. Það sem stendur hinsvegar upp úr eftir kvöldið er hvernig mörg aukahlutverkin urðu svo stór í höndum þeirra sem með þau fóru að það mátti á stundum vart á milli greina hvaða hlutverk voru ,,aðal” og hver ,,auka”.

Í því sambandi langar mig fyrstan að nefna Ísak Jónsson sem fer með hlutverk Doody. Það fer ekkert sérstaklega mikið fyrir þessum karakter í bíómyndinni en í höndum Ísaks verður Doody alveg dásamlega eftirminnilegur fyrir vandræðaháttinn, ýktu taktana, bringusperringinn og feimnina gagnvart skvísunum. Þannig átti sessunautur minn það hreinlega til að garga af hlátri yfir vandræðaganginum í Doody.



Þá var Ævar Örn Kristinsson nokkuð skemmtilegur í hlutverki Danny. Flottur strákur og oft á tíðum trúverðugur í sínu hlutverki. Það mæðir reyndar mikið á þeim Emmu Bjarnadóttur (Sandy) í þessum tveimur aðalhlutverkum verksins. Ekki síst þegar kemur að dansatriðinu í lokin. Ég hélt um stund í mér andanum á meðan Ævar sveiflaði Emmu yfir sig og undir, fyrir aftan sig og framan...þannig að mörgum þótti nóg um. Minnti um margt á glæsilegu dansatriðin í Oklahoma hér um árið þegar Hafdís Kristjánsdóttir (móðir Emmu) stóð einmitt á sama sviði og var sveiflað út og suður, upp og niður af sínum dansherra. Gaman að verða vitni að sögunni endurtaka sig ....bara í nýrri kynslóð.

Jan, í höndum Svanhildar Eiríksdóttur, var líka bráðskemmtileg og alveg í karakter allan tímann. Svanhildur fór mjög vel með sínar línur þannig á stundum var engu líkara en að orginallinn væri mættur á svæðið. Og það er ekki sjálfgefið að heitur Grease-aðdáandi segi það.

Þórarinn Ólason (Tóti) var alveg siiiiiilkimjúkur sem ,,Táningsengillinn” og hæfði hlutverkið og lagið honum og hans silkimjúku víbró-rödd sérstaklega vel. Þetta söngatriði eitt og sér er eitt af mínum uppáhalds úr myndinni og stóðst leikhópurinn algjörlega væntingar mínar hvað það snerti, þannig að erfitt var að láta örlítil hljóðstjórnunarvandamál eyðileggja atriðið fyrir sér. Fagmaðurinn Tóti lét það allavega lítið trufla sig enda maðurinn ,,hokinn af reynslu”. 

Ég má til með að minnast á búningana akkurat í þessu atriði og þá sérstaklega á rúllu-kollurnar sem meðsöngkonur táningsengilsins skörtuðu. Þær voru algjörlega brill.


Alexander Páll Salberg tókst enn og aftur að fá mig til að taka bakföll af hlátri. Síðast var það í ,,Allra allra langbesta jólaleikrit allra tíma” þar sem hann fór á kostum sem jólakötturinn og nú var það í hlutverki hins einfalda Sonny. Ég hafði það á orði við sessunaut minn í leikhlé að Alexander ætti hiklaust að reyna á einhverjum tímapunkti við leiklistargyðjuna í Listaháskóla Íslands og ég stend við þau orð mín. Hann er gríneikari af Guðs náð, virðist njóta sín vel í försum og með óbilandi æfingum og réttri þjálfun gætum við verið að horfa á framtíðar atvinnuleikara hér á Íslandi.

Zindri Freyr Ragnarsson fer mjög vel með hlutverk ofurtöffarans Kenickie enda fagmaður þar á ferð. Hann nálgaðist karakterinn reyndar á dálítinn annan hátt en Jeff Conaway í bíómyndinni en ég er ekki frá því að þessi öðruvísi útgáfa af Kenickie hafi verið mun skemmtilegri og hentað stykkinu betur. Söngurinn hans var líka alveg brill og flutningur hans og T-fuglanna á ,,Greased lightning” var einn af hápunktum sýningarinnar að mínu mati. 

Unnur Guðgeirsdóttir í hlutverki Frk. Lynch var alveg dásamleg. Og þó svo hlutverkið hafi ekki verið stórt gerðu taktarnir, svipirnir og röddin það að verkum að hún var mjög eftirminnileg í þessu hlutverki.

Hlutverk Unu Þorvaldsdóttur sem Donna Sue var heldur ekki stórt en þegar hún söng sitt sóló-lag átti hún salinn. Fór ekki á milli mála að þar fór stelpa með náttúruhæfileika. Ég veit ekki til þess að ég hafi séð þessa ungu stúlku áður á sviði en svei mér þá...þar á hún sannarlega heima. Hún hefur undurfagra rödd og heilmikið vald á henni miðað við hversu ung hún er. 

Ég er ekki alveg viss hvað Íslenska orðið yfir ,,typecast” er... en ef sá stimpill skyldi festur á einhvern í þessu leikverki þá yrði það á Birki Högnason í hlutverki Vince Fontain. Hann hreinlega ,,átti” hlutverkið skuldlaust og erfitt að sjá fyrir sér einhvern annan í því hlutverki því það er eins og sniðið á hann.  Taktarnir, spörkin, mjaðmasveiflurnar, frasarnir, gráa-fílings-tendensarnir....allt gerði þetta það að verkum að Birkir umbreyttist hreinlega í ofursjarmann Fontain fyrir augum okkar. Og eins og það hefði ekki verið nóg þá býr Birkir yfir þessari óóótrúlega flottu rödd sem fékk sérdeilis vel notið sín í sóló-söngnum hans. Og í honum náði hann algjörlega að hrífa fólk með sér. Bravó Birkir!

Mögnuðustu frammistöðu kvöldsins, og sú sem fékk mig til að vatna músum, átti Sunna Guðlaugsdóttir. Ég viðurkenni að karakterinn Rizzo á sérstakan stað í hjarta mér. Ég elska þessa hörðu týpu sem notar kaldhæðnina sem grímu...svo enginn fái séð hennar viðkvæma ,,sjálf”.  Sóló-lagið hennar ,,There are worse things I could do” er það lag í söngleiknum sem ég hef langoftast hlustað á og sungið með aaaaalein heima. Og þar sem ég hef heyrt þetta lag oftar en stjörnurnar eru á himnum átti ég allra síst von á því að ég færi að grenja við að heyra það sungið af óþekktri leikkonu í litlu áhugamannaleikhúsi í Vestmannaeyjum! Váááá... Sunna Guðlaugsdóttir......þvílík rödd...þvílíkur flutningur....það er ekkert annað hægt að segja en vááááá!!! Það var eiginlega orðið nett vandræðalegt um tíma að sitja þarna hágrátandi úti í sal, með maskarann lekandi um allt andlit, og gera örvæntingafulla leit að tissjúi í handtöskunni svo maður myndi ekki hræða börnin í næstu sætum með útganginum á sér! Note to self Helena: Ekki bara sleppa því að setja á þig maskara fyrir jarðarfarir heldur og einnig þegar þú ferð á söngleiki í leikhúsinu!!! Ekki einungis fór Sunna vel með lagið sitt heldur var hún mjög trúverðug í sínu hlutverki allan tímann.  Bravó Sunna!

Mig langar svo sérstaklega til minnast á bakraddasönginn sem mér finnst bara vera algjört grundvallaratriði að sé til staðar þegar settir eru upp söngleikir. Mér þótti það sérstaklega áberandi í þessu stykki hversu rosalega vel það kom út að hafa bakraddir til að fylla upp í sönginn. Það skal viðurkennast að á stundum var það reyndar hrein nauðsyn að hafa þessa fyllingu, svo maður tali nú ekki um rétta tónhæð, til að vera leiðandi í söngnum fyrir ákveðna leikara. Hefði jafnvel mátt nota raddirnar enn meira í enn fleiri lögum. En raddirnar fengu sannarlega best notið sín í lögum þar sem forsöngvararnir voru nokkuð öruggir á skalanum og einnig í hópsöngvunum. Það var hrein unun á að hlýða á slíkum stundum. Bravó bakraddir!

Annað sem ég má svo til með að minnast á því mér fannst það einstaklega vel til fundið hjá L.V. Það var sú frábæra hugmynd ad kveikja eftirvæntingu, umræðu og spennu í okkar litla bæjarfélagi með því að birta myndir af karakterunum úr sýningunni, á facebook og víðar, nokkrum vikum fyrir frumsýningu. Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert áður hjá L.V. en ég hef séð þetta gert hjá atvinnumannaleikhúsum á fasta landinu og víða erlendis. Þetta er akkurat það sem ég vil sjá gerast. Að áhugi fólks sé vakinn svolítið áður en sýningar hefjast. Í þessu sambandi hefði einnig verið gaman að birta parta úr sumum söngatriðunum. Hugsa að það hefði, ekki síður, enn meiri ,,buzz” áhrif :) Ég vil því hrósa þeim er átti þessa hugmynd hjá L.V. og vona ég að þetta sé komið til að vera. Bravó tilhlökkunar-hugmyndasmiður!

Að síðustu skal þess getið að búningarnir, hár, förðun, lýsing og hljóð fá toppeinkunn hjá mér. Það er enginn smá vinna sem fellst í því að farða og greiða öllum þessum hóp svo vel sé. Ég má því til með að hrósa förðunar- og hárgreiðsluhópnum í hástert. Það var enginn aðal- eða aukaleikari sem var á nokkurn hátt ótrúverðugur hvað útlitið snerti í kvöld.....þökk sé ykkur og búningahönnuðunum.  Lýsing og hljóðstjórn skipta sköpum í svona verki og gæðamerki um góða stjórnun á þessum tveimur atriðum er þegar þú tekur ekki eftir neinu athugaverðu í þessu sambandi.  Í 90 % tilvika var hljóðstjórn og lýsing óaðfinnanleg og þykir það er nú bara helv...gott held ég. Texti í lögum skilaði sér vel til áheyranda í flestum tilfellum og ,,spottlætið” var oftast komið í tíma á það sem var að gerast á sviðinu.....og það er fyrir öllu. Sviðsmyndin var látlaus, hentug og skemmtileg. Má ég þá sérstaklega nefna hvernig sviðsteymið fór að því að afgreiða þetta með ,,Eldinguna”. Frábær hugmynd og bráðskemmtileg að mínu mati. 

Þá skal tekið fram að allir textar í verkinu eru fluttir á Íslensku, sem er auðvitað alveg frábært. Hefði að ósekju mátt greina frá Íslenskum heitum laganna í leikskránni og jafnvel hafa textana þar líka. En ég skil vel að það hefði jafnvel haft auka (óþarfa) kostnað í för með sér.


Að lokum langar mig bara til að þakka kærlega fyrir okkur sessunaut minn og má til með að vitna í orð hans hér rétt í lokin. En sem við gengum út úr salnum eftir sýningu kvöldsins og leikarahópurinn beið okkar á neðstu hæðinni fagnandi áhorfendum og klappandi fyrir þeim varð móður minni að orði  ,,Ja hérna hér....það er alveg eins og maður hafi sjálfur verið í aðalhlutverki hér í kvöld”! Ég tek undir þessi orð hennar.  Það er svo sannarlega flott leikhús sem fær þig til að finnast þú hafa verið í aðalhlutverki að leikslokum.

BRAVÓ LEIKFÉLAG VESTMANNAEYJA!

Helena Pálsdóttir.

128 views

Recent Posts

See All
bottom of page