top of page

Lína Langsokkur - Gagnrýni

Okkar eigin Lína!

Leikfélag Vestmannaeyja sýnir um þessar mundir sitt 179. verk. Að þessu sinni er það barnaleikritið um hina fjörugu Línu langsokk, eftir sögu Astrid Lindgren og í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðssonar, sem við fáum að upplifa í leikhúsi okkar Eyjamanna. En Ólafur Jens setti einmitt upp Glanna glæp með eftirminnilegum hætti hjá LV á sama tíma í fyrra. Örlögin höguðu því þannig að við leik(hús)félagi minn, Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttir, komumst óvænt ekki á frumsýninguna á Línu langsokk þann 18. október s.l. heldur mættum þess í stað glaðbeittar á 5. sýninguna sunnudaginn 27.október. Sem mikill aðdáandi leikhússins hef ég gegnum árin stundum velt fyrir mér hvort ekki væri sniðugt að mæta a.m.k. tvisvar á hvert leikverk þ.e. á frumsýningu og svo aftur þegar svolítið væri liðið á sýningartímann. Oftar en ekki hef ég látið það eftir mér. Finnst það nánast segja sig sjálft að eftir því sem leikararnir verða sjóaðri í því að sýna fyrir framan fullt af fólki því ,,afslappaðri” og æfðari verða þeir. Við Kolbrún Harpa vorum því extra spenntar þegar við settumst í sætin okkar rétt fyrir klukkan þrjú á sunnudaginn, innan um troðfullan sal af börnum og fullorðnu fólki. Það gladdi mig ósegjanlega að þrátt fyrir að uppselt væri búið að vera síðan verkið var frumsýnt viku áður þá skyldi það það sama vera upp á teningnum þennan dag. Fullt út að dyrum og eftirvænting í loftinu. Það var líka bráðskemmtilegt að vera innan um öll þessi börn í salnum því auk þess að upplifa verkið út frá sjónarhóli hins fullorðna fékk maður líka upplifun hinna yngri beint í æð og allt um kring, þegar eitthvað fyndið og/eða spennandi gerðist á sviðinu. Sem, þeir sem þekkja söguna um Línu vita, að er nánast gegnum gangandi allt verkið.

Fjöldi ungra leikara fer með helstu burðarhlutverk í sýningunni, einmitt margir hverjir sem stóðu að sýningunni um Glanna glæp með Ólafi Jens leikstjóra í fyrra. Þá leika sumir hverjir fleira en eitt hlutverk auk þess að taka þátt í hópatriðunum. Sara Sindradóttir og Gabríel Ari Davíðsson voru óaðfinnanleg sem systkinin Anna og Tommi og fóru afbragðs vel með línurnar sínar. Það gerðu þær Helga Lind Halldórsdóttir/mamma Línu og María Fönn Frostadóttir/mamma Önnu og Tomma, líka. Þá stóðu þau Daníel Frans Davíðsson, Reynir Þór Egilsson, Ágústa Andersen, Embla Heiðarsdóttir og Sarah Elía Ólafsdóttir sig líka vel í sínum hlutverkum. Hulda Helgadóttir hefur nokkrum sinnum tekið þátt í uppfærslum Leikfélags Vestmannaeyja. Það sést líka. Hún fer afar vel með sitt hlutverk og er glæsileg sem kennslukonan, áræðin, bein í baki, virðuleg og einstaklega þolinmóð. Þær Valgerður Elín Sigmarsdóttir/Frú Pússulín, Svala Hauksdóttir/Frú Guggoss og Bertha Þorsteinsdóttir/Frú Grenjstað fóru líka vel með sín hlutverk. Ég verð sérstaklega að fá að nefna hversu hrikalega fyndin Bertha var sem frú Grenjstað. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Bertha stígur á svið hjá LV. Við sáum hana til dæmis síðast í hlutverki póstsins í leikritinu um Glanna glæp. En það er fyrst nú, í sínu litla hlutverki sem frú Grenjstað, sem mér finnst Bertha nánast ,,koma út úr skelinni” og fara á kostum með hnyttnum tilsvörum og bráðskemmtilegri leikrænni tjáningu. Ég hlakka til að sjá hana í jafnvel enn stærri hlutverkum í framtíðinni. Rakel Perla Gústafsdóttir var dásamlega skemmtileg sem apinn Herra Níels. Ég hafði mjög gaman af því að fylgjast með henni þegar fókusinn í verkinu var á einhverju allt öðru en henni því hún datt aldrei úr karakter og var fljót að grípa til sinna ráða ef eitthvað brá útaf handritinu. Líkt og þegar einn gullpeningurinn skoppaði upp úr töskunni hennar Línu og spannst í hringi á gólfinu. Stökk hún þá fimlega á eftir honum og laumaði honum í vasann á vestinu sínu. Eitthvað sem maður ímyndar sér að sögupersónan Níels hefði alveg örugglega gert líka. Bráðvel gert hjá þessari ungu leikkonu.

Lögreglumennirnir Hængur og Klængur í meðförum þeirra Jökuls Elís Þorvaldssonar og Alberts Snæs Tórhamar voru einstaklega skemmtilegir. Samleikur þeirra Jökuls og Alberts, sem reyndar eru ekki alveg að taka sín fyrstu skref á sviðinu, var á stundum alveg hreint frábær og bráðfyndinn. Albert Snær hefur löngu sannað að hann hefur þetta element sem þarf til að vera eftirtektarverður á sviði og þó hlutverk hans að þessu sinni sé ekki það stærsta sem hann hefur tekist á við, þá fangar hann engu að síður athygli manns um leið og hann stígur á sviðið, enda hrikalega fyndinn í allri tjáningu og fasi. Það vakti hinsvegar sérstaka eftirtekt mína hversu mikið Jökli hefur farið fram í allri leikrænni tjáningu frá því ég sá hann síðast í farsanum ,,Blúndur og blásýra” og þar áður í barnaleikritinu ,,Ævintýrabókinni”. Hann hefur vaxið jafnt og þétt með hverju verkinu sem honum hefur verið treyst fyrir, er óborganlega fyndinn sem Hængur lögregluþjónn og vekur hjá manni tilhlökkun að sjá hann í framtíðarverkefnum á sviði Leikfélags Vestmannaeyja.

Annað skemmtilegt tvíeyki voru þjófarnir þeir Glúmur og Glámur, sem í höndum þeirra Snorra Geirs Hafþórssonar og Elís Kristins Símonarsonar, voru skemmtilega eftirminnilegir. Snorri Geir og Elí Kristinn hafa nokkrum sinnum birst okkur á sviði LV, líkt og þeir Jökull Elí og Albert Snær, sem er fagnaðarefni fyrir okkur leikhúsgesti því bæði þykir mér persónulega vænt um tryggðina sem þetta unga fólk heldur við litla leikfélagið okkar, auk þess sem mér þykir ofboðslega gaman að fá að fylgjast með því þroskast og dafna sem leikarar með hverri nýrri áskorun. Það á einmitt við um þá Snorra Geir og Elí Kristinn. Þeir fóru mjög vel með línurnar sínar, sýndu stórgóðan leik og var söngurinn þeirra afbragð, hvort heldur þeir voru í hlutverki þjófa eða sjóræningja. Aron Kristinn Smárason fer með tvö hlutverk í verkinu líkt og þeir Snorri Geir og Elí Kristinn. Karakterinn Adolf sterki er sem sniðinn fyrir hann og hans líkamsbyggingu en það var hlutverk hans sem Hr. Langsokkur, pabbi Línu, sem vakti sérstaka athygli mína og okkar. Aron Kristinn fer nefnilega þrælvel með það, er einstaklega skýrmæltur og svo býr hann yfir svona fantagóðri söngrödd. Ég sá Aron Kristinn síðast í Glanna glæp hjá LV þar sem hann fór einmitt ansi vel með hlutverk Íþróttaálfsins og því þótti mér gaman að sjá hann mættan aftur á sviðið. Samsöngur hans og Íseyar var líka einn af hápunktum verksins.

Ísey Heiðarsóttir fer ótrúlega vel með hlutverk Línu. Það mæðir auðvitað mikið á þessari aðalpersónu verksins og ekki annað hægt en að dást að frammistöðu hinnar þrettán ára gömlu Íseyar sem virðist búa yfir nánast óveraldlegri orku og sprengikrafti. Þetta tvennt nýtir hún sérstaklega vel í hlutverk sitt. Svo vel reyndar að mér er til efs að margir eldri leikarar gætu leikið það eftir. Ég átti hreinlega bágt með að leyna undrun minni á hvernig Ísey fór að því að fara með allan þennan texta, hvort heldur hún var syngjandi eða talandi, og um leið vera hoppandi, skoppandi, klifrandi og dansandi um allt sviðið...án þess, að því er virtist, að blása úr nös! Þvílíkt þrek og fítonskraftur sem býr í þessari ungu leikkonu. Hún var líka frábær í allri leikrænni tjáningu, virðist bókstaflega hafa innbyrgt Línu með húð og hári og líða einstaklega vel á sviðinu svo útkoman varð okkar eigin Lína. Persónulega finnst mér hún fara með algjöran leiksigur í hlutverki sínu þrátt fyrir að allur texti hafi ekki endilega alveg skilað sér út til áhorfenda. Reyndar fer tvennum sögum af þessu með textann því yngri sessunautar mínir virtust aðspurðir heyra og skilja allt sem Lína sagði á meðan við sem eldri erum pirruðum okkur á að missa af nokkrum línum hér og þar. Þetta hefur því kannski eitthvað meira með heyrn okkar eldri að gera en framburð Íseyar. Allur söngur hennar og lágstemmdar, talaðar línur voru nefnilega einstaklega skýrar hjá henni og skiluðu sér vel út til áhorfenda. Ég hlakka allavega til og vona innilega að við fáum að sjá meira af Ísey á sviði Leikfélags Vestmannaeyja...því á sviði á hún sannarlega heima.


Það er ástæða til að óska Ólafi Jens og öllum aðstandendum sýningarinnar til hamingju með þetta nýjasta verk LV. Sýningin er bráðskemmtileg og tíminn fljótur að líða þegar saman fer hönd í hönd gaman og spenna. Hópatriðin voru líka skemmtilega útfærð, fjörug og vel samhæfð. Og svo verð ég að fá að nefna allan samsöng í verkinu sem var alveg uppá tíu. Má ekki bara þakka það leikendum og frábærri söngþjálfun Jórunnar Lilju Jónasdóttur heldur og einnig vandaðri hljóðstjórn Snorra Rúnarssonar. Ég verð að lokum að fá að nefna sviðsmyndina sem var einföld, skemmtileg og haganlega hönnuð, þar sem hringsviðið fær sannarlega notið sín. Síðast en ekki síst er það förðun og búningahönnunin sem var nú með því betra sem ég hef séð hjá LV. Má ég þá sérstaklega nefna þetta tvennt í tengslum við þau Línu, Hr. Langsokk, Adolf sterka og Herra Níels. Virkilega vel gert.


BRAVÓ...Ólafur Jens og þið öll hjá Leikfélagi Vestmannaeyja!

Takk fyrir mig og okkur,


Helena Pálsdóttir

142 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page