top of page

Nei, ráðherra! - Gagnrýni

Þegar áhorfandinn rennur úr sæti sínu af hlátri

“Eitt skemmtilegasta og fyndnasta verk sem félagið hefur sett upp hingað til!”



Leikverk: Nei, ráðherra.

Höfundur: Ray Cooney.

Íslensk heimfærsla: Gísli Rúnar Jónsson.

Leikstjóri: Stefán Benedikt Vilhelmsson.


Það var eftirvænting í loftinu sl. miðvikudagskvöld þegar prúðbúnir gestir mættu til frumsýningar á nýjasta verki Leikfélags Vestmanneyja, Nei, ráðherra, eftir meistara farsanna Ray Cooney. Sérstaklega var eftir-væntingin mikil hjá okkur Kolbrúnu Hörpu Kolbeinsdóttur, leik(hús)félaga mínum, enda báðar beðið lengi eftir að komast á alvöru farsa í Bæjar-leikhúsi okkar Eyjamanna. Leikfélagið hefur staðið sig með mikilli prýði síðastliðin ár, boðið uppá hvern stórsöngleikinn á fætur öðrum og bæjarbúar sýnt það í verki að þeir kunna vel að meta það sem LV hefur fram að færa og hafa fjölmennt leikhúsið.

Stefán Benedikt Vilhelmsson leikstjóri, sem nú mætir öðru sinni til að leikstýra hjá LV, viröist hafa notað æfingatímann vel og náð að skapa þéttan stemmningshóp þar sem grínboltanum er kastað á milli, oft á mildum hraða, þannig að áhorfandinn má á stundum hafa sig allan við að eyða ekki of miklum tíma í að hlæja af einum brandara svo hann missi hreinlega ekki af þeim næsta. Það er alltaf ákveðin áhætta fyrir leikhópa að setja upp farsa og hún getur verið ærandi þögnin þegar ekki er hlegið á réttum stöðum. En hvort heldur áhorfendur hafi hlegið á réttu stöðum eður ei, þá höfðu leikararnir vart stigið á sviðið þegar fyrsta hlátursbomban sprakk í salnum og svoleiðis gekk það nánast alla sýninguna.


Tók bakföll og sló sér á lær

Fólk veltist um í sætum sínum, tók bakföll og sló sér á lær á meðan aðrir réðu bara ekki við sig og görguðu af hlátri. Á einum tímapunkti hló einn leikhúsgesturinn svo mikið að hann hreinlega rann úr sæti sínu niður á gólfið! En hvort því einu var um að kenna að hann hristist fram úr sætinu af hlátri eða því hversu óbærilega heitt var í salnum skal ósagt látið. En að gefnu tilefni verð ég að minnast á slæma loftræstingu í salnum. Strax þegar gestir gengu inn í salinn fundu menn vel fyrir mollunni og versnaði bara eftir því sem leið á sýninguna. Leikhúsgestur hafði á orði í hléinu að loftræstingin væri víst svo hávær að ekki væri hægt að hafa kveikt á henni meðan á sýningu stendur. En hvort sem það er rétt eða ekki er ljóst að menn verða að finna betri lausn en þá að slökkva bara á loftræstingunni svo gestum verði hreinlega ómótt í miðri sýningu.



Bráðskemmtileg, hrífandi og snobbuð

Að þessu sögðu þá má ég til með að nefna hvað leikararnir virtust annars láta hitann litið á sig fá, þó svo stöku leikari hafi þurft að strjúka burt svitatár af og til. Leikhópurinn samanstendur af óreyndum og reyndari leikurum sem fara eðli málsins samkvæmt með misstór hlutverk. Þannig leikur ein af okkar reyndari leikkonum Unnur Guðgeirsdóttir lítið hlutverk sem Jóhanna Sigurðardóttir. Unnur er alltaf bráðskemmtileg og þarf ekki einu sinni að vera á sviðinu til að vera fyndin samanber símatilkynningar í upphafi sýningarinnar. Sigríður Þóra Ingadóttir fer líka með litið hlutverk sem Hlédís sjúkraliði. Mig rekur ekki minni til þess að hafa séð Sigríði Þóru á sviði áður en hún hefur hrífandi nærveru og átti góða spretti. Byrjendamistök eins og þau að rjúfa óviljandi „fjórða vegginn" með stöku störu á áhorfendur, fyrirgefast auðveldlega á frumsýningum. Sandra Rós Þrastardóttir leikur Rannveigu eiginkonu ráðherrans. Ég hef ekki séð Söndru áður á sviði en mér fannst henni takast vel til. Hún var skemmtilega snobbuð ráðherrafrú, skýrmælt og örugg á sviðinu.


Brosmild, fjörug og abbó

Birta Marinósdóttir er í litlu hlutverki sem Anna, erlenda herbergisþernan á Hótel Borg. Birtu hef ég séð áður á fjölum LV og hef gaman af henni. Hún er með andlit fyrir sviðið, er heillandi, brosmild og skemmtileg í sínu hlutverki sem hin dásamlega misskilda Anna. Enn ein ný leikkona, Ríkey Konráðsdóttir, sem leikur Gógó viðhald ráðherrans, fer mjög vel með sitt hlutverk og ekki hægt að sjá ef þetta er hennar frumraun á leiksviði. Hún er fjörug, skýrmælt og geislandi sem Gógó, mjög trúverðug og á hreint ágætis samleik með Skæringi Þórarinssyni strax í fyrsta þætti. Kristinn Viðar Þorbergsson leikur Atla Geir kærasta Gógóar. Kristinn þekkir sviðið ágætlega enda stutt síðan hann lék í Ævintýrabókinni þar sem hann fór með hlutverk Stígvélaða köttsins með eftirminnilegum hætti. Hlutverk hans nú, sem hinn afbrýðissami Atli Geir, krefst þess að hann mæti í sína fyrstu innkomu á sviðið bálreiður í leit að Gógó sinni sem hann grunar um að vera að halda framhjá sér. Mér fannst Kristinn hafa mátt slaka ögn á yfirspenntum andlitsvöðvunum og æsingnum í næstu innkomum á eftir, áhorfendur voru jú, alveg komnir með það á hreint að hann væri reiður og abbó kærasti. En þrátt fyrir æsinginn og ofsann á hann nokkrar innkomur sem eru hreint út sagt bráðfyndnar. Sérstaklega eftirminnilegt er atriðið með honum, Skæringi og Bjarna Daníelsyni þegar móttökustjórinn kemur óvænt að Atla Geir og ráðherranum uppi á herbergi.


Ógleymanlegur og ótrúlega hugrakkur

Bjarna Daníelsson kannast ég ekki við að hafa séð á sviði áður en hann leikur móttökustjórann á Hótel Borg. Bjarni skilar svona líka vel af sér sínu hlutverki. Flott persónu-sköpun, hefur háan, skýran og góðan talanda, formlegur í pínulítið of stórum fötum móttökustjórans sem vill ekkert fremur en halda hinum háa standard í starfi sínu. Algjörlega ógleymanlegur í áðurnefndu atriði með þeim Skæringi og Kristni þar sem svipbrigði hans og hneykslan fékk áhorfendur til að taka bakföll í sætum sínum og slá sér á lær. Gott ef það var ekki einmitt þarna sem einn leikhúsgesturinn rann úr sæti sínu og á gólfið þegar mest lét. Óli Bjarki Austfjörð leikur Martein sem fenginn er af Atla Geir, kærasta Gógóar, til að komast að því hvort Gógó sé að halda framhjá honum. Óli Bjarki er ekki að leika í fyrsta skipti á sviði LV og það sést. Hann er öruggur, ber sig vel og þarf að leika stóran part af sínu hlutverki án orða en þeim mun meira með búknum. Það tekst honum svo sannarlega vel. Þeir sem muna eftir grínplötunni Úllen Dúllen Doff (1980), muna kannski einhverjir eftir atriðinu þar sem Árni Tryggvason leikur Sigfinn Borg leikara, er hafði í sínu fyrsta hlutverki leikið lík og gert það „af svo mikilli innlifun að nályktin hafi fundist alla leið út í salinn!" Þessari setningu skaut ítrekað upp í kollinn þar sem ég fylgdist með Óla Bjarka á sviðinu í fyrri hluta sýningarinnar. Hann er mjög trúverðugur í sínu hlutverki, bráðfyndinn og á stundum alveg ótrúlega hugrakkur. Þannig fékk hann leikhúsgesti a.m.k tvisvar til að taka andköf yfir leikfimi sinni á sviðinu.


Skilar ráðherranum bráðvel

Skæringur Óli Þórarinsson, sem fer með stærsta hlutverkið í sýningunni, leikur ráðherrann Örvar Gauta Scheving sem mættur er á Hótel Borg til að eiga ástarfund með viðhaldinu sínu. Þó þetta sé síður en svo í fyrsta skipti sem Skæringur stígur á svið LV er engu að síður mikil ábyrgð lögð á hann með þessu stóra hlutverki og mikill texti að muna. En Skæringur nær að skila ráðherranum bráðvel af sér. Samleikur hans og Árna Þorleifssonar er á tíðum algjörlega frábær og ekki annað hægt en að dást að Skæringi sem fer nánast óaðfinnanlega með hlutverk sitt í annars mjög hröðu verki. Verki sem byggist uppá mögnuðum húmor, oft einnar-línu-gríni, nákvæmri tímasetningu og ýktum svipbrigðum. Það dylst engum að Skæringur á heima á sviðinu enda með leikhúsbakteríuna í blóðinu líkt og foreldrar hans sem báðir léku á fjölum LV hér á árum áður. Skæringur virðist algjörlega afslappaður á sviðinu og runnu línurnar upp úr honum, að því er virtist, algjörlega án fyrirhafnar. Frábær frammistaða.



Traustsins verður

Árna Þorleifsson, sem leikur Guðfinn Maack aðstoðamann ráðherrans, hef ég nokkrum sinnum áður séð bregða fyrir á fjölum LV. Hann hefur hingað til skilað sínum hlutverkum með ágætum án þess þó að vera sérstaklega eftirminnilegur. Árna hefur hinsvegar farið stöðugt fram bæði í leikrænni tjáningu og framsögn og því fagna ég að Stefán leikstjóri hafi treyst honum fyrir þetta stóru hlutverki. Árni sýnir það líka og sannar að hann er algjörlega traustsins verður. Hann leikur hinn unga og undirgefna aðstoðarmann ráðherrans alveg dásamlega, er skemmtilega vandræðalegur, óreyndur í samskiptum við hitt kynið og bráðfyndinn.


Lof í lófa eftir hverja einustu innkomu

Alexander Páll Salberg leikur hinn aldna herbergisþjón á Hótel Borg. Það er ekki ofsögum sagt að Alexander Páll fari með algjöran leiksigur að þessu sinni á fjölum LV. Loksins, loksins fáum við að sjá hann í alvöru farsa. Alexander Páll er, eins og ég hef örugglega alltof oft ritað áður, algjörlega fæddur til að leika í farsa og hér fær hann svo sannarlega hlutverk sem er eins og skrifað með hann í huga. Ég er hreint ekki hissa á að Stefán leikstjóri hafi valið Alexander í hlutverk hins kaldhæðna herbergisþjóns á Hótel Borg. Svipbrigðin, fasið, hreyfingarnar, óbrigðular tímasetningarnar og allir litlu brandararnir sem hann fer svo vel með, gera það að verkum að Alexander fer algjörlega á kostum sviði Leikfélags Vestmannaeyja. Svo mikið reyndar að áhorfendur réðu sér vart fyrir kæti á frumsýningunni og klöppuðu honum lof í lófa eftir hverja einustu innkomu. Það segir í raun allt sem þarf að segja um hans frammistöðu.



Tæknivinna óaðfinnanleg og flott sviðsmynd

Það má enginn, sem á annað borð hefur gaman af því að hlæja, láta þessa sýningu framhjá sér fara. Það eru ekki bara leikararnir sem fara algjörlega á kostum því bæði ljós-, mynd- og hljóðstjórn er algerlega óaðfinnanleg enda Viktor Rittmüller kominn með mikla og dýrmæta reynslu eftir að hafa stjórnað þessum þáttum í nokkur ár hjá LV. Þá verð ég að nefna að sviðsmyndin var einkar flott og fallega útfærð. Áhorfendur voru allavega alveg að kaupa það að þetta væri svíta á Hótel Borg þökk sé Ragnari Gíslasyni smið og Stefáni leikstjóra sýningarinnar. Förðun og gervi, í umsjón Maríu Ernu Jóhannesdóttur, var líka mjög vel unnið og má ég í því sambandi nefna sérstaklega förðunina á herbergisþjóninum og móttökustjóranum á Hótel Borg. Nei, ráðherra er enn ein rósin í hnappagat Leikfélags Vestmannaeyja og svo hárrétt hjá þeim að setja á svið farsa á þessum tímapunkti. Og akkúrat nú, þegar bölmóður útaf samgöngum, pólitík og heilbrigðismálum tröllríður allri umræðu, er ekkert dásamlegra en að skella sér í leikhúsið og horfa á drepfyndinn farsa og eftirminnileg atriði eins og þegar leikararnir brutu viljandi „fjórða vegginn" með vísan í þá atburði sem tengjast forsætisráðherra vorum og hans frú. Það ætlaði hreinlega allt um koll að keyra í salnum á þeim tímapunkti. Ég á hreinlega ekki til nógu mörg orð til að lýsa hrifningu minni og okkar leik(hús)félaga míns Kolbrúnar Hörpu á nýjasta verki LV, en fullyrði hér með að Nei, ráðherra er eitt skemmtilegasta og fyndnasta verk sem Leikfélag Vestmannaeyja hefur sett upp til þessa.


BRAVÓ ...Stefán Benedikt!

BRAVÓ ...Leikfélag Vestmanneyja!


Takk fyrir mig og okkur,

Helena Pálsdóttir

88 views

Recent Posts

See All
bottom of page