top of page

Rocky Horror - Stútfullur kassi af allskonar dásamlegum konfektmolum!

Leikfélag Vestmannaeyja sýnir Rocky Horror Leikstjóri: Árni Grétar Jóhannsson Höfundur verks: Richard O'Brien Þýðing: Veturliði Guðnason

Tónlistarstjóri: Helgi Rassmusen Tórshamar


Sjaldan eða aldrei hef ég verið jafn spennt fyrir frumsýningu á nokkru verki á vegum Leikfélags Vestmannaeyja og Rocky Horror sem leikfélagið frumsýndi í gær Skírdag. Allt frá árinu 1987 þegar ég þá 15 ára sá fyrst myndina Rocky Horror Picture Show frá árinu 1975, mynduðust einhver órjúfanleg tengsl við þetta verk og karakterana sem það hefur að geyma. Hef ég því verið einlægur aðdáandi söngleiksins síðan. Þegar kvissaðist út að leikfélagið ætlaði að setja upp Rocky Horror hafði ég vissar væntingar um hverjir innan leikhópsins yrðu valdir í ákveðin hlutverk og kom það síðar ánægjulega á óvart hversu sannspá undirrituð reyndist vera í megindráttum. Ekki minnkaði það nú eftirvæntinguna eða sú staðreynd að leikfélagið hefði fengið Árna Grétar Jóhannson til liðs við sig til að leikstýra verkinu. Árni Grétar er leikhúsgestum í Eyjum að góðu kunnur en hjá LV hefur hann leikstýrt áður við góðan orðstír verkum eins og Benedikt búálfi, Klaufum og kóngsdætrum og svo hinu drepfyndna verki Blúndum og blásýru. Enn einn litli konfektmolinn sem gladdi óumræðanlega mikið var þegar ég las að LV hefði ákveðið að notast við kunnuglega þýðingu Veturliða Guðnasonar á verkinu en ekki nýrri þýðingu Braga Valdimars Skúlasonar sem engu að síður þykir stórgóð og sem hann gerði fyrir leikfélag Borgarleikhússins sem frumsýndi stykkið 16.mars 2018. En þó Bragi Valdimar sé persónulega í miklum metum hjá mér sem texta- og lagahöfundur þá er þýðing Veturliða á verkinu einfaldlega sú sem ég þekki best og kann nánast utan af...svona fyrir utan orginalinn.

Söngleikurinn Rocky Horror, sem fyrir löngu hefur öðlast ,,cult-following“ vegna mikilla vinsælda s.l. fimmtíu ár, á ekki síst við í dag þegar ýmis valdaöfl í heiminum ýta undir og ala á ótta og hatri í garð jaðarhópa. Verkið fjallar um kærustuparið Brad og Janet sem leita skjóls í gömlum kastala úti á landi eftir að það springur á bílnum þeirra í aftakaveðri. Í kastalanum tapa þau smá saman sakleysi sínu eftir að hafa hitt þar fyrir klæðskiptinginn og vísindamanninn Frank ´N´Further, systkinin Riff Raff og Magenta svo og fleiri skrautlegar persónur þessa heims og annars þar sem kyntjáning og kynhneigðir eru allskonar. Verkið er ennfremur fullt af kynþokka, frábærum húmor og geggjaðri tónlist. Erum við leikhúsgestir enn á ný svo heppnir að fá að njóta lifandi flutnings tónlistar að þessu sinni. En það er Helgi Rassmussen Tórshamar sem fer fyrir fantagóðri hljómsveit hússins. Þeir Helgi, Biggi Nielsen, Símon Geir og Dúni Geirssynir, Kristinn Guðmundsson, Páll Viðar Kristinsson og Sigurmundur Gísli Einarsson eru ótrúlega þéttir á köflum og fara nánast óaðfinnanlega með þessi lög sem eru sönnum aðdáendum söngleiksins greypt í minni. Hvílíkir fagmenn! Geggjuð tónlistin kallaði ítrekað fram taktfasta kippi í útlimum og höfðum leikhúsgesta á frumsýningunni svo erfitt var að halda kyrru fyrir. Mikið svakalega held ég að það verði tryllt stemning á partýsýningunni í kvöld. Kæmi ekki á óvart ef LV þyrfti að endurtaka slíka sýningu einu sinni eða oftar því það er auðvitað löngu orðið uppselt á þessa í kvöld. Ég hef áður nefnt í pistli hversu mikilvægt það getur verið að hafa sterkar og góðar bakraddir þegar söngur er hluti af leikverki. Það sannaðist nú sem áður. Ekki bara voru bakraddirnar sem samanstóðu af þeim Bryndisi Guðjónsdóttur, Guðný Tórshamar, Ingveldi Theodórsdóttur og Kristínu Eddu Valsdóttur, góð uppfylling heldur og einnig meiriháttar góður og mikilvægur partur af stórgóðum samhljómi ásamt hljómsveit og aðalröddum verksins. Já og talandi um aðalraddirnar....Kristjana Rúna Kristjánsdóttir kemst vel frá sínu hlutverki sem grúbbpían Columbia, fyrrum bólfélagi Frank ´N´Further og kærasta Eddie. Það gerir líka Alexander Páll Salberg sem ríkisstarfsmaðurinn og vísindamaður Dr. Everett Scott sem kemur í kastala Frank ´N´ Further í leit að frænda sínum Eddie ...já og mögulegum geimverum. Alexander er margreyndur á sviði LV, fer bráðvel með þýska hreiminn sem einkennir Dr. Scott og er alveg hreint dásamlegur þegar hann birtist okkur síðar í hjólastólnum sínum, netasokkabuxum og hælaháum skóm og kyntjáningin tekur völdin. Það var líka vel til fundið að fá fyrrum fréttamanninn og þingmanninn Pál Magnússon í hlutverk sögumannsins og skemmtilegur, lítill konfektmoli sem fólst í því hvernig vísað var í hans gömlu fréttamannadaga í sjónvarpinu með því að skipta milli sjónarhorna/myndavéla í a.m.k einu innslagana. Vakti það mikla kátínu hjá undirritaðri.Fyrir miðaldra leikhúsgest sem alltaf hefur haft andlitið á söngvaranum Meatloaf í kollinum sem hinn eina sanna, villta og uppreisnargjarna sendibílstjóra Eddie sem mætir ótímabærum dauðdaga sínum í kastala Frank ´N´ Further, var innkoma Bryndísar Guðjónsdóttur í þessu hlutverki einn óvæntasti og skemmtilegasti konfektmolinn sem borinn var á borð fyrir okkur á frumsýningarkvöldinu. Bryndís hefur einhvern óútskýranlegan og einstakan sprengikraft sem hún nær svo vel að nýta sér á sviðinu. Síðast var það í hlutverki Evu appelsínu í Ávaxtakörfunni, þar sem Bryndís fór hreinlega á kostum og nú er það sem Eddie, fyrrverandi elskhugi Frank ´N´ Further, kærasti Colombiu og frændi vísindamannsins Dr. Scott. Vona ég svo sannarlega að við fáum að sjá enn meira af Bryndísi og þessum fítonskrafti hennar á sviði í framtíðinni. Einlægir aðdáendur Rocky Horror vita vel að upphafslagið í verkinu verður seint flokkað sem lag fullt af tilfinningum nema síður sé. Staðreyndin er engu að síður sú að þegar Ingunn Silja Sigurðardóttir, í hlutverki Magenta systur Riff Raff, hafði lokið við að syngja lagið ,,Vísindaspuni“ höfðu bæði tár læðst í augnkróka mína og gæsahúð hríslast ítrekað upp eftir handleggjum mínum og leikhúsfélaga míns Kolbrúnar Hörpu Vatnsdal. Það hlýtur að vera sjaldgæft að fá gæsahúð af hrifningu þegar aðeins um nokkrar sekúndur eru liðnar af nánast hvaða lagi sem er. En það var hreint ekki textinn sem kallaði á þessa gæsahúð heldur stórkostlegur söngur Ingunnar Silju þegar hún fór með okkur upp í rjáfur með þessum líka geggjaða vibrato. Hvílíkur sópran og sannarlega einn af eftirminnilegri konfektmolum þessa kvölds.Valgerður Elín Sigmarsdóttir skilaði sínu hlutverki óaðfinnanlega. Hún er dásamleg sem hin nýtrúlofaða Janet Weiss, unnusta Brad og í raun fullkomin sem stillta, sæta stelpan sem dregin er á tálar af Frank ´N´Further og uppgötvar í framhaldinu sína eigin kynveru. Valgerður virkar sjálfsörugg á sviði, er skýrmælt, með fína söngrödd og fer hreinlega á kostum í laginu ,,Komdu komdu við mig“. Arnar Gauti Egilsson leikur Rocky ,,hinn fullkomna mann“ sem vísindamaðurinn Frank ´N´ Further skapar til handa sér en sem reynist svo ekki eins fullkominn og Frank vildi hafa. Arnar Gauti er líkamlega skapaður fyrir þetta hlutverk. Hann sýnir auk þess stórgóðan leik, hefur skýra og góða framsögn og býr yfir þrælfínni söngrödd líka. Hvað er hægt að biðja um meira? Árni Þorleifsson hefur komið fram í þó nokkrum verkum á vegum LV og því ætti það að koma fáum á óvart hversu fantagóður leikari hann er nú orðinn. Það er engu að síður algjörlega frábært að verða vitni af því hversu mikið honum hefur farið fram á s.l. árum og ég hreinlega fullyrði að Árni hefur aldrei verið betri en einmitt þarna í hlutverki hins nýtrúlofaða, verndandi og góða gæja Brad Majors sem líkt og Janet er tældur af Frank ´N´Further með eftirminnilegum hætti. Það er alltaf ofboðslega góð tilfinning sem fylgir því að sitja út í sal í leikhúsinu þegar Zindri Freyr Ragnarsson Caine fer með hlutverk á fjölum þess. Ég hef áður nefnt það í pistli að þegar Zindri stígur á svið leikhússins þá bara veit maður að hann á eftir að gera sitt 100%. Að þessu sinni sýnir hann einfaldlega stórleik sem geimveran og hægri hönd Frank ´N´ Further, Riff Raff.

Orðum þetta svona: Zindri ER Riff Raff!

Algjörlega frábær ákvörðun að velja hann í þetta hlutverk. Zindri hefur þann einstaka hæfileika að vera alltaf skýr í máli, hafa ótrúlega góða framsögn og meira að segja í þessu hlutverki þar sem hann þarf bæði að tala og syngja með allt öðrum áherslum en honum er eðlislægt nær áhorfandinn samt hverju einasta orði sem frá Zindra kemur. Geri aðrir betur! Megum við fá meira svona takk....meira af Zindra!

Þegar ég heyrði af því fyrst fyrir nokkrum mánuðum að LV hygðist setja upp Rocky Horror hafði ég á orði í nánum hópi að ég vonaðist eftir að Albert Snær Tórshamar yrði valinn til að leika Frank ´N´Further. Þegar áheyrnarprufum var lokið nokkru síðar og í ljós kom að Albert hefði hreppt hlutverkið gladdi það mig óumræðanlega mikið því allt frá því ég sá Albert fyrst á sviði árið 2016, í hlutverki Sölvars súra í verkinu um Benedikt búálf, var ég algerlega sannfærð um að þessi strákur ætti heima á sviði og myndi með árunum geta tekið að sér stærri og viðameiri hlutverk. Albert hafði og hefur þrælfína söngrödd og jafnframt tæknilega getu til að beita henni þannig að hann nær að halda réttri tónhæð hvort heldur hann syngur mjóróma uppi á háu nótunum eða dimmraddað niðri á lágu nótunum. Það er síður en svo auðvelt að gera. Albert hefur síðan þarna árið 2016 komið fram í fjölmörgum verkum á fjölum LV, vaxið jafnt og þétt og á stundum farið hreinlega á kostum. Hann er þrælklár á tímasetningum, virkar sjálfsöruggur á sviðinu, hnyttinn og skemmtilegur og hefur greinilega tekið vel eftir í leikstjórn Árna Grétars. Svo mjög reyndar að Albert fer allt að því óaðfinnanlega með hlutverk hins ráðríka en jafnframt barnalega, ástríðufulla vísindamanns Frank ´N´Further...geimverunnar frá Transilvaniu sem kemur til jarðarinnar og heillast af öllu því mennska, fólkinu, menningunni ...já og auðvitað kynlífinu. Geggjaður performans Albert!

Það var uppselt á frumsýninguna að kvöldi Skírdags og þegar þessar línur eru skrifaðar á Föstudaginn langa er uppselt á allar sýningar helgarinnar. Það skilja allir vel sem voru staddir á frumsýningunni enda ætlaði fagnaðarlátum áhorfenda aldrei að linna að sýningu lokinni og reyndar var það svo að fólk réði sér vart fyrir kæti á meðan sýningu stóð heldur góluðu á stundum og sungu með. Þrotlaus vinna leikhópsins, dansara, sviðshönnuða, ljósastjórnunar, hljóðvinnslu, hár- og förðunarhönnuða svo og búningahönnuða og endalaus þolinmæði aðstandenda þeirra allra eru að skila sér í dag. Hvílík heppni fyrir okkur Eyjamenn að eiga svona geggjað leikfélag og fólkið allt í kringum það. Rocky Horror í uppsetningu LV er veisla fyrir augu og eyru. Það segi ég sem margra ára einlægur aðdáandi söngleiksins en það segi ég líka fyrir hönd leikhúsfélaga míns Kolbrúnar Hörpu sem var að sjá verkið í allra fyrsta sinn í gærkvöldi. Hún var algjörlega heilluð upp úr skónum. Hafið þökk fyrir alla fjölbreyttu og dásamlegu konfektmolana sem þið báruð á borð fyrir okkur í gærkvöld.

BRAVÓ... Árni Grétar og þið öll hjá Leikfélagi Vestmannaeyja!

Takk fyrir mig og okkur, Helena Páls


164 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page