Vorverkefni Leikfélags Vestmannaeyja í ár er gamanleikritið Blúndur og blásýra eftir Joseph Kesselring. Verkið segir frá öldnu systrunum Mörtu og Abbý Brewster sem búa ásamt léttgeggjuðum frænda sínum á ættaróðali Brewster fjölskyldunnar í Brooklyn. Systurnar eru annáluð gæðablóð en undanfarið hafa þær uppgötvað nýja ástríðu á seinni árum ævi sinnar, sem er að svæfa einmanna eldri karlmenn svefninum langa með eiturbruggi sínu. Þegar annar ungur frændi þeirra kemst að dægradvöl kerlanna fara hjólin heldur betur að snúast og úr verður ansi skoplegur ærslaleikur.
Með hlutverk systranna fara bræðurnir Alexander Páll og Albert Snær Tórshamar en með þeim á sviði eru átta vaskir leikarar, margir hverjir þrælvanir á sviði LV, sem og ný andlit sem sjást nú fyrst á fjölunum.
Leikstjorn er í höndum Árna Grétars Jóhannssonar en þetta er í þriðja sinn sem hann leikstýrir fyrir LV. Áður hefur hann leikstýrt barnaleikritunum Benedikt Búálfur og Klaufar og kóngsdætur en er þetta í fyrsta sinn sem hann leikstýrir fyrir fullorðna Vestmannaeyinga.
Comments