top of page

Spamalot

Leikfélag Vestmannaeyja sýnir Spamalot – Handrit: Eric Idle Tónlist: John Du Prez og Eric  – Idle – Þýðing: Bragi Valdimar Skúlason – Leikstjóri: Stefán Benedikt Vilhelmsson


Söngleikurinn Spamalot, eftir breska leikrita- og tónskáldið Eric Idle sem er ekki síst þekktur fyrir að vera meðlimur grínhópsins vinsæla Monty Python, hefur verið sýndur víða um heim við miklar vinsældir og er nú komið að okkur Eyjamönnum og gestum okkar að fá að njóta verksins af höndum Leikfélags Vestmannaeyja. Bragi Valdimar Skúlason íslenskufræðingur og tónlistarmaður sá um þýðingu á verkinu og gerir það af slíkri snilld að texti, sem undirritaðri þótti persónulega svona í meðallagi fyndinn á upprunalega tungumálinu, verður hreint bráðskemmtilegur og afar hnyttinn eftir meðhöndlun og stílfæringu Braga Valdimars á honum.



Það er Stefán Benedikt Vilhemsson sem leikstýrir verkinu en þetta er í þriðja skiptið sem hann starfar með LV. Söngleikurinn er byggður á myndinni ,,Monty Python and the holy grail“ og segir frá Artúri konungi og riddurum hringborðsins og leit þeirra að hinu heilaga grali. Á ferðalaginu verða á vegi þeirra allskonar skrautlegir karakterar sem og hindranir sem þeim tekst misvel að komast í gegnum.  Í verkinu fléttast saman veröld Broadway söngleikja og sagnheimur miðalda þannig að útkoman verður full af ærslaleik, allskonar vitleysu, fullorðins húmor, söng og dansi.

 

Það er stór hópur leikara og dansara sem fara með hlutverk í Spamalot og þó nokkrir sem fara með fleiri en eitt hlutverk. Þau stóðu sig afar vel í sínum fjölbreyttu og mis stóru hlutverkum þau Guðjón Emil Ómarsson, Jón Helgi Reykjalín, Auðbjörg Helga Óskarsdóttir og Gunnar Davíð Frímanns. Sigurjón Geirsson var líka í nokkrum smáhlutverkum, eins og þau hér að ofan, en hann var einkar hress og líflegur í hlutverki Ekki-dauður-enn og þá stóð Reynir Þór Egilsson sig líka vel og var sérstaklega skemmtilegur sem hinn lítt hörundsári svarti riddari.

Þá er ekki hægt að láta hjá líða að minnast sérstaklega á dansarana og Karmellusysturnar þær Maríu Fönn Frostadóttur, Guðný Emilíönu Tórshamar, Guggu Rún Vestmann, Önnu Maríu Lúðvíksdóttur, Valgerði Elínu Sigmarsdóttur og Svölu Hauksdóttur sem stóðu sig algjörlega frábærlega í skemmtilega útfærðum og fjölbreyttum dansatriðum sem nóg var af í þessu verki. Bertha Þorsteinsdóttir hefur tekið þátt í þó nokkrum uppfærslum LV og þó hún hafi aldrei verið í sérstaklega stóru burðarhlutverki hefur hún engu að síður oftar en ekki dregið athygli áhorfenda að sér fyrir góða frammistöðu.

 

Að þessu sinni var það frábær túlkun hennar á  Tuma galdramanni sem varð þess valdandi að einn af sessunautum mínum hreinlega grét úr hlátri. Elí Kristinn Símonarson leikur hugrakka….eða réttara sagt hinn huglausa riddara Hróa og ferst það vel úr hendi. Hann er skemmtilega kómískur, fer vel með textann sinn og hefur fínustu söngrödd. Það hefur líka Jökull Elí Þorvaldsson sem hinn óttalausi og átakafjáði riddari Lancelot sem við fáum að sjá að á sér ögn mýkri hlið líka síðar í verkinu.

Arnar Gauti Egilsson leikur hinn ráðgefandi riddara Bedivere sem reynist hreint ekki eins ráðagóður og halda mætti þegar á hólminn er komið. Það hefur verið mjög gaman að fylgjast með Arnari Gauta vaxa með hverju hlutverkinu sem hann hefur tekist á hendur og kemst hann virkilega vel frá sínu í þessu verki.

 

Alexander Páll Salberg fer bæði með hlutverk sögumannsins sem og Herberts prins og þó hann fari vel með bæði hlutverk er það engu að síður frammistaða hans sem hinn mjúki Herbert sem fær áhorfendur til að skella ítrekað uppúr. Ekki síst þegar hann hefur upp mjóróma söngröddina þar sem hann situr í turninum og bíður eftir að hans eina sanna ást komi og finni hann. Algerlega dásamlegur.

 

Zindri Freyr Ragnarsson Caine er bráðskemmtilegur í sínum þremur hlutverkum. En hann leikur hinn ýkta franska og hrokafulla Hæðinn svo og bróðir Magnfreð og síðast en ekki síst föður Herberts prins, sem hann er hreint út sagt orðinn þokkalega þreyttur á hversu mjúkur og söngelskur hann er. Zindri er óborganlegur í þessum hlutverkum sínum og sýnir okkur að þarf ekki alltaf að hreppa stærstu hlutverkin til að vera eftirminnilegur.

Sarah Elía Ó. Tórshamar leikur Blóra hinn trausta meðreiðarsvein Artúrs konungs sem vill ekkert meira en vera viðurkenndur af konungnum og sýnir honum eindæma hollustu í einu og öllu þrátt fyrir að vera hálf ósýnilegur í augum húsbónda síns. Sarah Elía hefur tekið þátt í nokkrum uppfærslum á fjölum LV þrátt fyrir ungan aldur en þetta er í fyrsta skipti sem við fáum að sjá hana í svona stóru hlutverki. Henni ferst það líka vel úr hendi og sýnir á stundum hreint frábæra og óaðfinnanlega frammistöðu. Það heyrist líka að hún hefur fallegan tón í söngröddinni sinni sem með réttri þjálfun og æfingu gæti orðið afar frambærileg. Ég ætla því rétt að vona að hún haldi áfram á listabrautinni því hún hefur þar mikið fram að færa hvort heldur snýr að leiklist eða tónlist. Ég hlakka allavega persónulega til að fylgjast með henni í framtíðinni.

 

Ingunn Silja Sigurðardóttir leikur Vatnadísina. Stórt hlutverk og það kröfumesta þori ég að segja sem hún hefur tekið að sér á vegum LV hingað til. Ingunn Silja býr yfir stórkostlegri sópran söngrödd sem marga dreymir um hafa og því skyldi engan, sem þekkir verkið Spamalot, undra að Stefán leikstjóri hafi valið hana í hlutverk Vatnadísarinnar þar sem hlutverkið krefst mikils sönglega séð af leikaranum. Bæði hvað varðar söngstíl og tónhæðir. Það gleður óumræðanlega að Ingunn Silja skuli sífellt fá stærri og viðameiri hlutverk til að takast á við á fjölum leikfélagsins, því leikur hennar nú ber þess merki að hún hafi slípast vel til við hverja áskorun sem hún hefur tekist á hendur. Það er eitthvað við röddina hennar sem fær undirritaða og leikhúsfélaga hennar Kolbrúnu Hörpu Kolbeinsdóttur til að fá gæsahúð í hvert skipti sem hún hefur upp raust sína og frumsýningarkvöldið var engin undantekning þar á. Svo er hún líka bara drullufyndin á stundum í hlutverki dívunnar sem finnst hún aldrei fá nógu mikinn tíma á sviðinu.

 

Albert Snær Tórshamar leikur lágstéttarmanninn Denna sem gengur til liðs við Artúr konung og umbreytist í hinn aðlaðandi riddara Galahad. Mér finnst ég oftar en ekki vera að endurtaka sjálfa mig þegar ég fjalla um frammistöðu Alberts Snæs á sviði LV. En sannleikurinn er engu að síður sá að Albert fer á kostum í hlutverki Galahad. Eins og einn af sessunautum mínum hafði á orði í leikhlé ,,Albert fer einhvern veginn alltaf vel með allt sem hann gerir á sviði“. Og það er satt. Honum virðist einfaldlega líða lang best á sviði fyrir framan fullan sal af fólki og ber stórgóður leikur hans þess merki. Albert er bráðfyndinn, með tímasetningar á hreinu, hefur góða söngrödd og svo er samleikur hans og Ingunnar Silju svo og samsöngur þeirra í ,,Einmitt svona lag“ alveg hreint stórkostlegur og dásamlega fyndinn. Enda ætlaði fagnaðarlátunum aldrei að linna eftir þá frammistöðu þeirra.


Sigurhans Guðmundsson er eins og hann hafi verið fæddur til að leika Artúr konung. Útlitslega séð hefði hann vel getað verið uppi á miðöldum og svo hefur hann einkar flotta, djúpa og valdsmikla rödd sem hann kann sérstaklega vel að beita á sviðinu hvort heldur það er á mæltu máli eða sungnu. Minnti um margt í sínum bestu senum á okkar afar dáða leikara Ólaf Darra. Og þó þetta hafi verið í fyrsta skipti sem ég persónulega sé Sigurhans í stykki á vegum LV þykist ég þó vita að þetta sé hreint ekki í fyrsta skipti sem hann stígur þar á svið. Ber stórgóður leikur hans, tímasetning og tækni þess öll merki að þar er enginn viðvaningur á ferð.

 

Ætla ég rétt að vona að við fáum að sjá enn meira af Sigurhans á sviði LV í framtíðinni því þar á hann sannarlega heima. Búningar og leikmynd vöktu sérstaka athygli okkar Kolbrúnar Hörpu í þessu verki enda áberandi hversu vandað er til verks hvað þetta tvennt varðar. Skilst mér að þar hafi samvinna LV og FabLab skipt sköpum. Ber að þakka það sérstaklega um leið og ég vona að þetta sé aðeins byrjunin á enn frekara samstarfi þar í millum. Eins verð ég að fá að nefna ljósahönnunina sem var sérstaklega flott og hljóðstjórn sem var nánast óaðfinnanleg. Spamalot er bráðfyndinn söngleikur með, að því er virðist, oft ótrúlega tilviljunarkenndum og á stundum vandræðilega fyndnum bröndurum og geggjuðum karakterum. Stemningin á frumsýningunni var frábær og leikhúsgestir vel með á nótunum. Enn og aftur fáum við Eyjamenn að upplifa hversu rík við erum að eiga þetta frábæra áhugamannaleikhús sem Leikfélag Vestmannaeyja er. Leikfélag  sem virðist ekki hafa minnsta vott af minnimáttakennd, veigrar sér ekki við að ráðast í risastór verkefni eins og Spamalot og gera það líka svona fantavel.

 

BRAVÓ…Stefán Benedikt og þið öll hjá Leikfélagi Vestmannaeyja!Takk fyrir mig og okkur, Helena Páls

 




55 views0 comments

Recent Posts

See All

Breyting á stjórn

Sú breyting hefur orðið á stjórn að Goði Þorleifsson og Jórunn Lilja Jónasdóttir sögðu sig frá stjórnarstörfum eftir að sýningum á Rocky Horror var lokið. Þökkum við þeim kærlega fyrir samstarfið og ó

bottom of page